Hoppa yfir valmynd

Þróunarmarkmið og umhverfisvernd.

Mikilvægi auðlindanýtingar og umhverfisverndar er ótvírætt í utanríkismálum. Baráttan um yfirráð yfir auðlindum hefur oft ráðið örlögum ríkja og heimshluta. Íslendingar sjálfir þekkja afleiðingarnar af ásókn útlendinga í auðlindir landsins af eigin raun, allt aftur til fimmtándu aldar, þegar Evrópuþjóðir tóku að elta þorskinn upp að Íslandsströndum. Síðan þá hafa verið háð tíu þorskastríð við landið, þar af þrjú á síðustu öld.

Auðlindir eru í eðli sínu tengdar öryggi ríkja og hafa oft verið undirrót vopnaðra átaka. Olíulindirnar í Austurlöndum nær eru nærtækt dæmi. Margt bendir til að ferskvatn kunni að verða ein dýrmætasta auðlind jarðar í náinni framtíð, en meira en milljarður manna hefur ekki aðgang að óspilltu vatni. Orkuskortur er annað vaxandi áhyggjuefni, en tveir milljarðar manna í heiminum, nærri þriðjungur mannkyns, hafa ekki not af rafmagni.

Á undanförnum árum hefur það sjónarmið rutt sér til rúms að tilgangslítið væri að tala um frið og öryggi nema böndum verði komið á uppsprettur ófriðar: fátækt, hungur, sjúkdóma og ofbeldi. Í því skyni þurfi að finna leiðir til að nýta auðlindirnar án þess að eyða þeim, en vernda þær jafnframt til þess að mannkyninu nýtist þær. Þetta er rauði þráðurinn í því starfi sem hófst með heimsráðstefnunni í Ríó árið 1992 og var fram haldið með þúsaldaryfirlýsingunni árið 2000, framkvæmdaáætlun heimsráðstefnunnar í Jóhannesarborg árið 2002 og nú síðast yfirlýsingu leiðtoga í New York á fimm ára afmæli þúsaldaryfirlýsingarinnar í september sl.

Þúsaldarmarkmið S.þ.

Þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna eru í hópi hinna umfangsmestu sem ríki heims hafa nokkru sinni sett sér í sameiningu og því e.t.v. jafn gott að þau eru einungis átta talsins og eiga ekki að vera komin til framkvæmda fyrr en að tíu árum liðnum. Þegar vel er að gáð, kemur í ljós að helmingur þessara markmiða eru nátengdur auðlindanýtingu og umhverfisvernd:

- Viðurkennt er að fyrsta markmiðinu, upprætingu fátæktar og hungurs, verður ekki náð nema með því að standa vörð um vistkerfið, sem er undirstaða fæðuöflunar til sjávar og sveita um allan heim.

- Fjórða markmiðinu, að draga úr barnadauða, verður því aðeins náð að takist að bæta úr vannæringu og vatnsmengun.

- Matvælaframleiðsla, vatnsframboð og vatnsgæði hafa áhrif á heilbrigði fólks og ráða úrslitum um hvort árangur næst í baráttunni fyrir sjötta markmiðinu, að hamla gegn sjúkdómum.
- Loks er sjöunda markmiðið að tryggja viðvöxt sjálfs vistkerfisins, sem rányrkja, mengun, náttúruhamfarir og loftslagsbreytingar eru nú talin ógna.

Ef viðurkennt er að tengslin milli vistkerfis og velferðar séu svo náin, er e.t.v. ekki að undra að ríki heims freisti þess nú að afla sér haldbetri þekkingar á sjálfu vistkerfinu og samverkandi þáttum þess. Eitt eftirtektarverðasta framlag sem fram hefur komið í þeim efnum hin síðari ár er án efa Þúsaldarvistmat Sameinuðu þjóðanna, frá því fyrr á þessu ári.

Þúsaldarvistmat S.þ.

Í samantektinni er dregin upp dökk mynd af auðlindum veraldar og umgengni manna við þær: Um sextíu af hundraði þeirra vistgæða sem við búum við á jörðinni fer hnignandi. Álag á auðlindir eins og fiskistofna og ferskvatnsforða er umtalsvert fram yfir það sem þær geta borið. Auðlindanýting hefur á síðustu fimmtíu árum getið af sér örari og afdrifaríkari breytingar á vistkerfinu, þ.á m. loftslagi, en á nokkru sambærilegu tímabili í mannkynssögunni. Varað er við því að gengið verði enn frekar á höfuðstólinn, eftir því sem þjóðarframleiðsla í heiminum eykst þrefalt til sexfalt á næstu fimmtíu árum.

Rányrkja þessi mun, samkvæmt Þúsaldarmatinu, einkum bitna á hinum fátækari ríkjum heims. En auðugri ríki munu ekki fara varhluta af henni heldur. Þannig hafa auðugri ríki saxað á ýmsar auðlindir sínar, svo sem fiskistofna og timbur, þótt þjóðhagsreikningar sýni aðeins aukna þjóðarframleiðslu. Slíkir útreikningar sýna m.ö.o. ekki þverrandi arðsemi auðlindanna til lengri tíma litið.

Við lestur þessa yfirgripsmikla armæðurits Sameinuðu þjóðanna er því erfitt að koma auga á “þróun”, hvað þá “sjálfbæra þróun”. Þess í stað horfumst við að óbreyttu í augu við langvarandi hnignun lífskjara í heiminum, m.ö.o. óbæra afturför.

Spurningar

Þegar hér er komið sögu, er því e.t.v. tímabært að svara fyrstu spurningu stjórnanda: “Fara þróunarmarkmið og umhverfisvernd saman?”. Svarið er nei, a.m.k. að dómi höfunda Þúsaldarmatsins. Nýting auðlinda og vernd hafa ekki haldist í hendur, þar sem vernd hefur í vaxandi mæli vikið fyrir nýtingu. Til að bæta úr þessu, er nauðsynlegt að þúsaldarmarkmiðunum verði hrundið í framkvæmd. Því aðeins munu þróunarmarkmið, til lengri tíma litið, fylgjast að með umhverfisvernd.
Önnur spurning stjórnanda er “Hvað getur Ísland lagt af mörkum varðandi sjálfbæra þróun á hnattræna vísu?”

Á Íslandi snérust auðlindamál lengi vel um sjávarútvegs- og hafréttarmál. Markmið okkar var í meginatriðum að tryggja þjóðinni full yfirráð yfir fiskimiðunum í kringum landið til að geta nýtt þau á ábyrgan hátt.

Þetta meginmarkmið var að langmestu leyti í höfn þegar hafréttarsamningur Sameinuðu þjóðanna tók gildi árið 1994. Á sama tíma og gerð hafréttarsamningsins var að ljúka tók öðru ferli hins vegar að vaxa fiskur um hrygg í alþjóðasamstarfi, en það hófst með heimsráðstefnunni í Ríó og framkvæmdaáætlun hennar, svokallaðri Starfsskrá 21, um sjálfbæra þróun.

Markmiðin með Starfsskrá 21 og hafréttarsamningnum fara að sjálfsögðu saman. Engu að síður hefur ekki ætíð tekist að halda áherslum þessara tveggja gjörninga í jafnvægi. Í hafréttarsamningnum hvílir ábyrgðin einkum á aðilum samningsins og litið er til svæðisbundinna samtaka og alþjóðastofnana um stuðning við markmið strandríkisins. Á grundvelli Starfsskrár 21 hefur á hinn bóginn í vaxandi mæli verið litið svo á að höfin séu sameiginleg auðlind mannkyns, að viðfangsefnin séu af hnattrænum toga og því beri að leysa þau með samstilltu átaki ríkja heims. Af þessum sökum hefur ýmist verið litið á hafið sem “auðlind” eða “umhverfi”, þar sem nýting hefur verið spyrt saman við rétt strandríkisins um vernd við hnattræna stjórnun.

Þessi tvíhyggja, sem einnig hefur sett svip á íslenska þjóðmálaumræðu, hefur gengið sér til húðar og átti sér raunar aldrei haldbærar málsbætur. Í umræðum á alþjóðavettvangi hafa, eins og við vitum, komið fram verndarsjónarmið sem þrengt gætu svigrúm Íslendinga í sjávarauðlindamálum. Tillögur um bann við botnvörpuveiðum eða lokun viðkvæmra hafsvæða eru dæmi um slík sjónarmið, svo ekki sé minnst á afskipti af hvalveiðum í vísindaskyni. En svarið við alþjóðavæðingu hafumræðunnar er ekki að reisa virkisveggi í kringum íslenska auðlindanýtingu. Að framfylgja fullveldisréttinum og taka þátt í alþjóðlegu samstarfi eru ekki valkostir, enda var það í krafti þátttökunnar í alþjóðastarfi sem Ísland tryggði sér réttinn til að nýta auðlindir hafsins innan efnahagslögsögunnar.

Á sjávarútvegssviðinu getur Ísland sýnt fordæmi um það á hnattræna vísu hvernig vernd og nýting geta farið saman. Að því leyti getum við tendrað ljós í svartnætti Þúsaldarvistmatsins. Tilraunir til að gera “íslensku leiðina” sýnilega í alþjóðlegu samstarfi kynnu raunar að vera árangursríkasta aðferðin til að tryggja Íslendingum áframhaldandi svigrúm til að stjórna auðlindinni óáreittir. Að þessu leyti er ásýnd Íslands í alþjóðastarfi að öðrum þræði auðlind.

Í orkumálum gilda sömu meginreglur og í málefnum hafsins. Einnig hér hafa hnattræn afskipti og verndarsjónarmið verið tilfinnanleg, eins og viðbrögð við stíflugerð við Kárahnjúka og baráttan fyrir íslenska ákvæðinu í Kyoto-bókuninni eru til marks um.

Vægi orkumála í alþjóðasamskiptum hefur aukist hröðum skrefum. Eins og utanríkisráðherra gat um í ræðu sinni á Alþingi í gær, hefur Ísland kosið, við þessar aðstæður, að leggja sérstaka áherslu á þátt endurnýjanlegra orkugjafa, ekki síst jarðhita. Viðleitni okkar til að auka enn frekar hlut endurnýjanlegrar orku með vetnistækni hefur sömuleiðis vakið óskipta athygli á erlendri grund.

Loks er spurt: “Hver ættu að vera áhersluatriði Íslands varðandi sjálfbæra þróun í hnattrænu samhengi?”

Enginn vafi leikur á að vaxandi meðvitund ríkja heims um tengsl velsældar og vistkerfis dregur athygli að sérstöðu Íslands, ekki síst á sviði sjávarnytja og endurnýjanlegrar orku. Þessa sérstöðu eigum við að nýta sjálfum okkur til framdráttar og greiða fyrir útflutningi íslenskrar reynslu og sérþekkingar, eins og við gerum raunar þegar í starfi okkar að þróunarmálum.

Á næstu tveimur árum verða orkuþróun og loftslagsmál í brennidepli samstarfsins um umhverfismál innan Sameinuðu þjóðanna. Hvort sem við trúum því eða ekki að loftslagsbreytingar séu raunverulegar eða varanlegar, opnar umræðan um loftslagsbreytingar Íslandi umtalsverð sóknarfæri í alþjóðasamstarfi um orkunýtingu.

Að auki, vil ég nefna tvö önnur áhersluatriði, sem ég tel umhugsunar virði fyrir umhverfisþing:

Jarðvegseyðing er einn mesti umhverfisvandi heims og meðal helstu orsakavalda fátæktar í þróunarríkjum. Innan tveggja ára minnumst við þess að öld verður liðin frá því að sett voru lög um sandgræðslu á Íslandi og hér hófst skipulegt landgræðslustarf. Ísland er aðili að eyðimerkursamningi Sameinuðu þjóðanna og getur lagt sitthvað af mörkum til að aðstoða þróunarríki við að hefta fok og binda jarðveg. Slíkt væri verðugur minnisvarði þess framsýna fólks sem fyrir heilli öld skynjaði þann auð sem í jörðinni býr og þá ógn sem landfokið er.

Í starfi okkar á sviði auðlindanýtingar og umhverfisverndar er að opnast upp ný vídd á norðurslóðum, en vistkerfi svæðisins hefur mikla þýðingu fyrir jörðina í heild. Því ber að fagna að RANNÍS hefur skipulagt sérstakar málstofur um tækifæri Íslands í norðurslóðasamstarfi, sem vonandi ryðja braut fyrir auknum rannsóknum og eftirliti með breytingum á náttúrufari norðursins. Gott dæmi er yfirstandandi rannsókn Norðurlandanna á áhrifum loftslagsbreytinga á orku- og vatnabúskap norðursins, þar sem íslenskir vísindamenn hafa tekið forystu.

Niðurlag

Markmið Íslands í þróunar- og umhverfismálum fara í meginatriðum saman. Með virkri þátttöku í alþjóðastarfi, sem byggir á árangursríkri og ábyrgri auðlindastjórnun heima fyrir, getum við best lagt af mörkum til sameiginlegrar stefnuskrár ríkja heims, eins og hún birtist í Þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, og jafnframt stuðlað að betri og friðsamlegri veröld. Á þeirri vegferð eigum við öll að geta gengið í takt, hvort heldur við aðhyllumst sjónarmið verndar eða nýtingar. Eins og segir í gönguvísu Góða dátans Sveijk – og hafa má sem leiðarvísi um “sjálfbæra þróun”:

Í gönguferðum er gamall siður:
Annan fótinn upp þegar hinn fer niður,
Simsala, dasala, búmsala, bupp,
Annan fótinn niður þegar hinn fer upp!

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics