Hoppa yfir valmynd

Heilsugæslan á tímum COVID-19

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra - myndHeilbrigðisráðuneytið

Heilsugæslan gegnir mikilvægu hlutverki sem fyrsti viðkomustaður almennings í heilbrigðiskerfinu. Um þessar mundir stendur Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins í ströngu við að veita ráðgjöf, þjónustu og sinna sýnatöku vegna COVID19-veirunnar, en sú þjónusta bætist ofan á hefðbundin verkefni heilsugæslunnar. 

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hefur nú þegar breytt skipulagi á þjónustu sinni til þess að bregðast við aðstæðum. Sérstök áhersla er lögð á skjóta, skýra og samstillta upplýsingagjöf til notenda heilsugæslunnar. Heilsugæslan veitir nú mikla fjarheilbrigðisþjónustu með símtölum. Hringt er í alla sem eiga bókaðan tíma og málin leyst símleiðis ef hægt er, og almennt kemur enginn inn á heilsugæsluna nema að viðkomandi hafi fyrst talað við starfsmann heilsugæslunnar í síma. Þannig er mögulegt að stýra því hverjir koma á heilsugæsluna og hvenær, til þess að minnka hættu á útbreiðslu veirunnar og vernda starfsfólk.

Eins og áður er mögulegt að senda skilaboð á sína heilsugæslu í gegnum Heilsuveru og nýta sér netspjallið á Heilsuveru (Heilsuvera.is). Starfsmönnum sem sinna netspjalli hefur verið fjölgað umtalsvert, auk þess sem sú nýjung hefur verið tekin upp að hægt er að panta símtal í gegnum Heilsuveru. Þannig minnkar álagið á símkerfinu. 

Gripið hefur verið til aðgerða til þess að efla sýkingavarnir á heilsugæslustöðvunum auk þess sem margir starfsmenn vinna að heiman. Upplýsingagjöf stjórnenda til starfsfólks hefur verið efld og mikið samráð haft við aðrar heilbrigðisstofnanir og einkareknar heilsugæslustöðvar. Þannig er þekkingu dreift manna á milli til þess að auka skilvirkni og auðvelda starfsemina á þessum krefjandi tímum.

Álagið er mikið og aðstæðurnar eru fordæmalausar, eins og svo oft hefur verið sagt í fjölmiðlum síðustu daga. Ég hef aftur á móti verið fullvissuð um það að starfsemi heilsugæslunnar gengur framar vonum og að starfsfólkið leggur sig allt fram um að gera sitt besta. Fyrir það ber að þakka. 

Grein heilbrigðisráðherra birtist í Fréttablaðinu 18. mars 2020.

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics

This website uses cookies to ensure you get the best experience on our website. Read more