Hoppa yfir valmynd

Nýja framtíðarsýn fyrir norrænt samstarf bar hæst á formennskuárinu

Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra Norðurlanda, í ræðustól á þingi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi í október 2019. - mynd

Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra Norðurlanda, kynnti í dag skýrslu um störf Norrænu ráðherranefndarinnar á Alþingi og samantekt um formennskuár Íslands. Í þeim er gerð grein fyrir viðburðaríku formennskuári Íslands í Norrænu ráðherranefndinni og árangursríku málefnastarfi í norrænu samstarfi. Formennskuverkefni Íslands lögðu áherslu á ungt fólk, sjálfbæra ferðaþjónustu í norðri og málefni hafsins og fengu góðan meðbyr á árinu. Fjölmargir viðburðir voru haldnir á árinu, jafnt ráðherrafundir, embættismannafundir málþing, vinnustofur og ráðstefnur. Langflestir fundir voru haldnir á Íslandi og áætla má að um 3.500 manns hafi komið til landsins að taka þátt í viðburðum tengdum formennskuárinu.

Hæst bar á formennskuárinu að ný framtíðarsýn fyrir Norrænu ráðherranefndina var leidd til lykta undir stjórn Íslands. Samstaða náðist um það sameiginlega markmið að Norðurlöndin verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims árið 2030. Forsætisráðherrar Norðurlanda samþykktu framtíðarsýnina á fundi sínum í Reykjavík í ágúst 

„Norðurlöndin vilja nýta styrkinn í norrænu samstarfi annars vegar til að verða sjálfbær samfélög og hins vegar að halda áfram að vera ein heild þar sem fólk og fyrirtæki flæða auðveldlega milli landa. Og ekki síst að áfram verði hlúð að sameiginlegum gildum og samstöðu Norðurlandanna,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra.

Sjálfbærni og loftslagsmál í forgrunni
Sjálfbærni og loftslagsmál verða í forgrunni framtíðarsýnarinnar og hefur Norræna ráðherranefndin sett sér þrjú forgangsmarkmið sem öll ráðherraráð og allar stofnanir eiga að vinna að á næstu fjórum árum. Það eru markmiðin um græn Norðurlönd, samkeppnishæf Norðurlönd og félagslega sjálfbær Norðurlönd. Drög að aðgerðaáætlun um sjálfbærni og loftslagsmál til næstu fjögurra ára var samþykkt á fyrsta fundi samstarfsráðherra Norðurlanda fyrr í vikunni.

Ráðherra sagði á Alþingi í dag að Norðurlandasamstarfið væri einstaklega mikilvægt fyrir Íslendinga. Þar værum við á heimavelli, stundum nám og atvinnu og njótum sömu réttinda og heimamenn. Í heild sinni væru Norðurlöndin annað af tveimur stærsta viðskiptalöndum Íslands þegar litið væri til inn- og útflutnings á vörum og þjónustu.

Aukin áhersla á vestnorrænt samstarf
Í formennskutíð Íslands var sjónum í auknum mæli beint að málefnum vestnorræna svæðisins. Samþykkt var ný stefnumótun um aukið samstarf Íslands, Færeyja, Grænland og Vestur-Noregs (NAUST-áætlunin), einkum í atvinnu- og byggðamálum. Þetta er í fyrsta skipti sem Norræna ráðherranefndin setur stefnu um málefni vestnorræna svæðisins.

Einnig var sjónum beint að samstarfi við Bretland og Skotland og þannig funduðu samstarfsráðherrar Norðurlandanna í Edinborg í september og hittu skoska ráðherra. 

„Ég er þeirrar skoðunar að norrænt samstarf við Skotland og Bretland eigi einungis eftir að aukast. Bretland – eftir Brexit – er í óðaönn að skilgreina samskipti sín við önnur Evrópuríki og margoft hefur komið fram áhugi Breta á auknu samstarfi við Norðurlöndin. Sama gildir um Skotland og raunar Írland. Norðurlöndin gerðu að mínu mati vel í því að auka svæðisbundna samvinnu sína við öll þessi lönd,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson í ræðu sinni á Alþingi um skýrslu um störf Norrænu ráðherranefndarinnar.

  • Meðfylgjandi fréttamynd nr 1
  • Meðfylgjandi fréttamynd nr 2
  • Meðfylgjandi fréttamynd nr 3
  • Meðfylgjandi fréttamynd nr 4
  • Meðfylgjandi fréttamynd nr 5
  • Meðfylgjandi fréttamynd nr 6
  • Meðfylgjandi fréttamynd nr 7

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics